Allt gerist á réttum tíma…

Allt gerist á réttum tíma…

Í byrjun júní eyddi ég dásemdarviku í Toscana á Ítalíu með góðum vinum. Á hverjum degi drukkum við í okkur fegurð, menningu og litríkt mannlíf Ítalíu. Dreyptum á og fræddumst um ítölsk eðalvín, sporðrenntum ítölskum mat í massavís og áttum saman ógleymanlegar samverustundir sem núna hafa komið sér kirfilega fyrir í minningarbankanum góða. 

En rétt eins og ég er búin að reyna svo oft áður, gerast ævintýrin þegar maður á síst von á þeim. 

Eftir viku sagði ég Arrividerci við vinahópinn þar sem hann sneri aftur heim í rigninguna í Reykjavík því alls óvænt hafði mér verið boðin tveggja vikna vinna á litlu hóteli í bænum Bagni di Lucca í Toscana. Þar biðu mín áframhaldandi skemmtilegheit og óvæntar uppákomur. 

Að loknu því ævintýri ákvað ég að fljúga til Barcelona og svo þaðan heim. En aftur tóku örlögin í taumana og færðu upp í hendurnar á mér nýjar og spennandi upplifanir. 

Í Barcelona kynntist ég nefnilega honum Daníel. Spennandi, fallegur, borinn og barnfæddur í Barcelona og alinn þar upp í fornbókasölu.

Best að ég spóli aðeins til baka því þessi saga byrjar eiginlega ekki í Barcelona og hvað þá fyrst nú í sumar. Í raun byrjaði hún sirka árið 2005. Í Vestmannaeyjum. Til að kasta ævintýraljóma á þessa sögu verð ég að segja ykkur hana frá upphafi því það sem ég upplifði í Barcelona núna í sumar var hreinlega skrifað í skýin. Gott dæmi um það að stundum þarf maður bara að bíða þolinmóður eftir rétta “mómentinu”, að sá tími kemur þegar hann á að koma, og þegar við erum andlega tilbúin til að taka á móti því sem örlögin færa upp í hendurnar á okkur. 

Árið 2005 kom fyrrverandi eiginmaður minn heim einn daginn eftir vikutúr á Herjólfi, með bók í hendinni sem datt eins og af himnum ofan í fangið á honum. Hann ákvað að lesa hana, því hún í fúlustu alvöru, bókstaflega datt í fangið á honum. “Beta þú verður að lesa þessa bók, þetta er líklega besta bók, sem ég hef lesið”, sagði minn fyrrverandi. 

Ég, bókaormurinn á heimilinu, glotti og benti honum á að það væru nú ekki margar bækurnar sem hann hefði lesið um ævina. En bókin fór á náttborðið því forvitni mín var vissulega vakin. Þar safnaði hún reyndar á sig ryki, lá þar hreinskilningslega ansi lengi ólesin. Endaði síðan upp í bókahillu í stofunni þar sem hún stóð pinnstíf og ólesin áfram. Ég tók hana reyndar fram reglulega en lagði hana svo ávallt frá mér á endanum. Byrjaði að lesa en hætti eftir stuttan lestur. Æ, þið vitið, stundum er bara ekki rétti tíminn. Svo “gerist” lífið og allt það.  Þið þekkið þetta. 

Við tóku búferlaflutningar á milli landshluta og alltaf var bókin með í för. Síðan skilnaður, og ég gríp bókina í þeim skiptum sem fylgdu í kjölfarið. Einhvern veginn náði ég sem sagt alltaf að passa upp á þessa bók, sama hvað gekk á og hvert sem ég fór og flutti. Í gegnum árin hef ég ferðast með hana um landið allt og ætlað mér að lesa, en aldrei orðið af því. 

Í apríl síðastliðnum fór ég til Kúbu og enn og aftur var bókin góða með í för. Ferðataskan sem hún var í varð viðskila við mig á ferðalaginu, og fékk ég töskuna ekki afhenta fyrr en mánuði síðar, ég þá löngu komin heim til Íslands. Bókin á sínum stað í töskunni, ólesin. Ég man ég horfði á hana þegar ég tók upp úr töskunni og hugsaði “Hvert ertu búin að fara elsku bók, án mín? Skyldum við einhvern tímann ná saman?” Hún svaraði mér auðvitað engu en einhvern veginn fannst mér spennan á milli okkar vera að stigmagnast. Ég er á því að bæði ég og bókin höfum fundið á okkur að nú væri að koma að því, að loksins næðum við saman. 

Þegar ég lagði af stað til Ítalíu í júníbyrjun var bókin eina ferðina enn með í för. Í Toscana náði ég aldrei að gefa mér tíma til að lesa hana, enda ferðin að mörgu leiti vinnuferð, námskeið í gangi, vinna á hótelinu í Bagni di Lucca, stanslaus gleði með góðum vinum og hreinlega enginn tími til að lesa bók.

Að lokinni dvölinni á Ítalíu tók ég lest til Flórens, þaðan sem ég átti bókað flug til Barcelona. Og það var loksins á flugvellinum í Flórens sem ég tók upp bókina og byrjaði að lesa fyrir alvöru.

Ég las í gegnum allt flugið. Ég reyndi að lesa í leigubílnum á leiðinni í íbúð dóttir minnar í Barcelona en þar ætlaði ég að búa ein á meðan ég dvaldi í Barcelona, dóttir mín á meðan heima á Íslandi. Þegar á reyndi varð ég í raun aldrei alveg ein þessa daga í Barcelona, því fljótlega var Daníel, söguhetja bókarinnar, með mér öllum stundum. Þessi sem ég sagði ykkur frá í upphafi. 

Ég gekk um Barcelona með Daníel og hans fólki. Vissi að ég var á slóðum þar sem hann ólst upp og upplifði lífið sem ungur strákur. Ég leitaði að Kirkjugarði gleymdu bókanna. Ég skimaði eftir kaffihúsum í gömlum byggingum, athugaði hvar ég gæti fengið mér baguette og eða spænska blóðpylsa.

Stundum stóð ég bara kyrr á þröngum strætum og endurupplifði spennuna, ógnvænlegu atburðina, allar stórbrotnu persónurnar sem urðu á vegi Daníels í bókinni. Ástina. Ó guð, hvað ég fann hana sterkt og upplifði með honum hjartasorg og svo síðar sátt. Sagan gerist á árunum eftir spænsku borgarastyrjöldina og á valdatíma Francos og segir frá því hvernig bók sem Daníel fann og las sem krakki, varð að atburðarás sem breytti lífi hans. Líf hans fléttast saman við persónur bókarinnar og tengjast höfundi bókarinnar. 

Aftur á bloggið